Ávarp forstjóra

Bjarni Bjarnason

Árið 2017 var fróðlegt í ýmsu tilliti í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Rekstur samstæðunnar gekk vel en árið er það fyrsta eftir að endurreisnartímabili Orkuveitunnar lauk, tímabili sem hér innanhúss gekk undir nafninu Planið. Ekki sáust merki um lausatök í rekstrarkostnaði á nýliðnu ári og er það von okkar að sú menningarbreyting sem orðin er tryggi Orkuveitunni góðan rekstur til frambúðar.

Strax í byrjun ársins nutu viðskiptavinir Veitna góðs rekstrar þegar lækkun varð á gjaldskrá fyrir kalt vatn og rafdreifingu. Gjaldskrá rafdreifingar lækkaði svo enn frekar undir lok ársins. Starfsfólk fyrirtækjanna innan OR samstæðunnar má vera stolt af þessum árangri.

Baráttan gegn hlýnun jarðar er mikilvægasta umhverfismál okkar tíma. Íslendingar verða að leggja hönd á plóg í glímunni við loftslagsvandann. Þar skiptir engu að orkan sem við vinnum er græn; það verða allir að leggja sitt af mörkum. OR hefur sett sér það metnaðarfulla markmið að draga úr kolefnislosun um 60% til ársins 2030. Árangur í þróunarverkefninu um bindingu kolefnis í jarðlög, CarbFix, gefur okkur fulla ástæðu til að vera bjartsýn um að markmiðið náist. Á árinu 2017 gerðist það svo að erlent fyrirtæki kom upp búnaði sínum við Hellisheiðarvirkjun til að draga koltvíoxíð beint úr andrúmsloftinu og nýta svo tæknina sem við höfum þróað til að binda það varanlega í jörðu. Engan skal undra að þetta vakti mikla athygli og straumur fjölmiðlafólks lá til okkar að forvitnast um þessa nýjung. Þróunarverkefnum í vinnslu háhitans er hvergi nærri lokið og Orkuveitan stefnir að sporlausri vinnslu Hellisheiðarvirkjunar innan nokkurra ára.

Hlutverk Orkuveitu Reykjavíkur í samfélaginu leggur okkur þá skyldu á herðar að hjálpa öðrum að draga úr losun hjá sér. Þar eru orkuskipti í samgöngum mikilvægasta verkefnið um þessar mundir. Orka náttúrunnar hefur nú reist hlöður um allt land, svo almenningur geti komist leiðar sinnar á rafbílum óháð búsetu, og þróað viðskiptakerfi sem leyfir gjaldtöku fyrir þjónustuna. Næstu skref snúa að þéttbýlinu en gera þarf íbúum í fjölbýli kleift að hlaða bílana sína heimafyrir. Verkefnið er nokkuð snúið og útilokað er að leysa hvers manns vanda á skömmum tíma. Samstarf milli Orku náttúrunnar, rafveitu og sveitarstjórnar í hverju sveitarfélagi fyrir sig, er lykillinn að góðum árangri. Líkja má orkuskiptum í samgöngum við orkuskipti í húshitun sem urðu með hitaveitunum á sínum tíma. Þar ruddu Íslendingar braut sem engin þjóð hefur fetað jafn langt og við. Tækifæri til orkuskipta í samgöngum er hvergi betra en á Íslandi. Það er verðugt verkefni að styðja við og hraða eftir föngum.

Að sumu leyti er Gagnaveita Reykjavíkur í svipuðum sporum og Orka náttúrunnar, hitt samkeppnisfyrirtækið innan Orkuveitusamstæðunnar. Öflug uppbygging á Ljósleiðaranum svarar kalli tímans um sífellt hraðari gagnaflutning.

Krafan um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði verður sífellt sterkari. Árið 2011 setti Orkuveitan sér þau markmið í jafnréttismálum að jafna hlut kynjanna í stjórnunarstörfum og að eyða kynbundnum launamun. Á nýliðnu ári náðust bæði markmiðin. Hlutur kvenna í stjórnunarstörfum innan samstæðunnar nemur nú 51% og launamun kynjanna hefur verið eytt að fullu. Reyndar fór svo í lok ársins að mælingar sýndu 0,3% launamun konum í vil og er það í fyrsta sinn sem slær í það borðið. Greining á kynbundnum launamun er nú gerð með sérstöku reiknilíkani sem Orkuveitan hefur þróað í samstarfi við fyrirtækið PayAnalytics. Líkanið gefur okkur samtímaniðurstöður og hjálpar okkur þannig að taka launaákvarðanir sem leiða til jafnréttisniðurstöðu. Sjö af hverjum tíu starfsmönnum OR og 95% iðnaðarfólks í samstæðunni eru karlar. Á hinn bóginn eru sjö af hverjum tíu skrifstofustörfum unnin af konum. Þessu viljum við breyta, m.a. með því að styðja við fjölgun kvenna í iðngreinum.

Að öllu samanlögðu var árið 2017 farsælt í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. Ánægja viðskiptavina með þjónustu dótturfyrirtækjanna þriggja; Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitunnar er talsverð. Fjárhagur Orkuveitunnar efldist þannig og nú sjáum við fram á að eigendur fyrirtækisins, sem hlupu undir bagga með rekstrinum í eftirköstum hrunsins, fari að fá sanngjarnt afgjald af þeim fjármunum sem bundnir eru í samstæðunni.