Ávarp stjórnarformanns

Brynhildur Davíðsdóttir

Orkuveitu Reykjavíkur (OR) er ætlað að tryggja viðskiptavinum sínum vatnsveitu, fráveitu, rafveitu, hitaveitu og gagnaveitu. Mikilvægi hennar verður ljóst ef maður gerir sér í hugarlund hvernig lífið gengi fyrir sig án þjónustu Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur. Veigamesta samfélagslega ábyrgð OR felst í fyrsta lagi í því að tryggja að þessi fjölþætta grunnþjónusta sé veitt og í öðru lagi í því hvernig staðið er að þeirri þjónustu. Hvernig skilum við auðlindunum sem við nú nýtum til komandi kynslóða? Hvert verður ástand veitukerfa og virkjana þegar næsta kynslóð tekur við þeim? Hefur okkur tekist að draga úr umhverfisáhrifum eins og kostur er? Verður þekking til staðar til að sinna þessum mikilvæga rekstri? Verður fjárhagur OR slíkur að hægt verði að veita þjónustuna á sanngjörnu verði til framtíðar og skila eigendum jafnframt eðlilegum arði? Svörin við þessum spurningum greina hvort starfsemi OR stuðlar að sjálfbærri þróun og er samfélagslega ábyrg.

Í þessari skýrslu, sem er nú gefin út með nýju sniði, er dregin upp mynd af starfseminni á árinu 2017 og leitast við að greina hvernig OR er í stakk búin til að mæta framtíðinni. Stuðst er við skýrslusnið sem kauphallirnar á Norðurlöndum hafa mótað og miðar að því að gefa heildstæða mynd af mikilvægum rekstarþáttum: umhverfisþáttum, samfélagsþáttum og stjórnarháttum, ásamt fjárhagsþáttum sem hér er fléttað saman við. Umhverfis- og auðlindamálin eru veigamest, enda byggir þjónusta OR og dótturfyrirtækjanna á því að nýting auðlinda sé skynsamleg og standist til lengri tíma. Metnaður OR í baráttunni við loftslagsvandann setur einnig svip á skýrsluna.

Eftir lögbundna uppskiptingu OR í nokkur fyrirtæki árið 2014, hefur reynt á skilvirka stjórnhætti innan fyrirtækjasamstæðunnar og í samskiptum hennar við eigendur OR. Mér sýnist ágætlega hafa tekist til og að verkaskipting stjórna, stjórnenda og eigenda sé skarpari en áður. Skýr verkaskipting er forsenda gegnsæis í rekstri. Við, í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, kappkostum að veita almenningi upplýsingar um hvaða mál við erum að fást við, hvaða ákvarðanir við tökum og á hvaða forsendum það er gert. Þetta gerum við með því að birta fundargerðir stjórnarinnar á vef OR.

Gegnsæi í rekstri er líka nauðsynlegt til að fyrirtækið og allir sem láta sig málefni þess varða, geti rætt saman um starfsemina. Við, sem erum ábyrg fyrir starfseminni, getum fært rök fyrir því að reksturinn sé samfélagslega ábyrgur, en hvort hann er það í raun hlýtur að vera niðurstaða samtals milli fyrirtækisins og hagsmunaaðila rekstursins. Í þessari samþættu ársskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2017 leggjum við spilin á borðið og bjóðum til samtalsins. Lesendum til hægðarauka tengjum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna viðkomandi atriðum í skýrslunni.

Stjórn OR hélt 16 fundi á árinu auk tveggja reglubundinna funda með eigendum, í apríl og nóvember. Unnið er eftir starfsáætlun stjórnar og gekk hún eftir. Einnig metum við eigin störf formlega til að átta okkur á hvort við höfum unnið að þeim verkefnum sem okkur eru falin eftir settum reglum.

Starfsmönnum öllum í samstæðu OR, stjórnendum og stjórnarmönnum færi ég bestu þakkir fyrir vel unnin störf árið 2017.