Í starfsemi OR, þar sem lögð er áhersla á stöðugar umbætur, verður til margháttuð þekking sem nýst getur öðrum. Ræðst það meðal annars af;
- forystu fyrirtækja innan samstæðunnar í jarðhitanýtingu,
- að Veitur eru langstærsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu og
- Gagnaveita Reykjavíkur með útbreiddasta ljósleiðaranet landsins.
OR lítur á það sem hlutverk sitt að miðla reynslu og þekkingu til annarra sem geta haft not af.
Árlega heldur OR samstæðan Vísindadag, þar sem ýmis þróunarverkefni eru kynnt. Landgræðslustjóri ON hélt námskeið og útbúið var kennslumyndband um lækningu sára í mosaþembum. Sá fróðleikur sem hefur víðast ratað er vafalaust sú þekking sem vísindafólk OR hefur aflað í samstarfi við fjölda annarra vísindamanna um bindingu jarðhitalofttegunda í basalti. Fjöldamargir mjög útbreiddir fjölmiðlar í heiminum hafa fjallað um verkefni OR og ON við Hellisheiðarvirkjun, sem þykir einstakt.
Samstarfsaðilar CarbFix og tengdra verkefna hafa alls hlotið sem svarar til 2,5 milljarða íslenskra króna í rannsóknarstyrki.
Nokkrir starfsmenn samstæðunnar kenna reglulega við háskóla og orkuskóla hér á landi og halda erindi á fagráðstefnum á Íslandi og erlendis. Sérþekking á jarðhita er eftirsótt en á árinu færðist í aukana að leitað væri til OR vegna árangurs fyrirtækisins í jafnréttismálum. Forstjóri OR flutti þannig erindi á Barber Shop-fundi Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn í október.