sidenav arrow up
sidenav arrow down

Samfélag

OR og Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur gegna því samfélagslega hlutverki að fólk njóti vatnsveitu, fráveitu, rafveitu, hitaveitu og gagnaveitu. Veigamesta samfélagsleg ábyrgð Orkuveitu Reykjavíkur felst í því að þessi grunnþjónusta sé áreiðanlega fyrir hendi og ánægja viðskiptavina með þjónustuna. Það skiptir líka máli hvernig þjónustan er veitt. 

OR vill vera eftirsóknarverður vinnustaður og lítur svo á að hæft og ánægt starfsfólks sé forsenda þess að markmiðum verði náð. Á íslenskan mælikvarða er OR samstæðan stór og því gætir áhrifa starfshátta hennar víða um samfélagið. OR vill vera til fyrirmyndar og leita stöðugra úrbóta við að rækja samfélagslega ábyrgð sína.

Ánægja viðskiptavina 2017

Fyrirtækin innan samstæðunnar fylgjast grannt með ánægju viðskiptavina með því að gera reglubundnar þjónustukannanir. Niðurstaða þeirra myndar vísitölu sem hér er sýnd fyrir hvert dótturfyrirtækjanna þriggja.

Þjónustuöryggi veitnanna

Útreikningur á afhendingaröryggi er byggður á aðferð sem lengi hefur verið við lýði hjá rafveitunum. Hún byggist á því að samanlögð lengd truflunar hjá hverjum notanda sem fyrir henni verður er deilt niður á alla viðskiptavini hverrar veitu. Veitur tóku þessa aðferð upp fyrir hitaveitu árið 2015 og fyrir vatnsveitu 2016.

Starfsánægja

OR og dótturfélagögin hafa gengið í gegnum miklar breytingar síðustu ár. Ánægja starfsfólks samkvæmt reglubundnum vinnustaðargreiningum hefur vaxið merkjanlega á þessum umbrotatímum.

S1 Launahlutfall forstjóra

Stjórn OR ræður forstjóra fyrirtækisins, semur starfslýsingu hans og ákveður starfskjör. Stjórn tekur mið af ákvæði eigendastefnu OR að laun stjórnenda skulu standast samanburð við sambærileg störf, þó að teknu tilliti til þess að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila. Starfskjaranefnd OR endurskoðar laun forstjóra árlega með tilliti til markmiða og mælikvarða fyrirtækisins.

Launahlutfall forstjóra er reiknað sem heildarlaunagreiðslur forstjóra deilt með miðgildi launa fastráðinna starfsmanna innan samstæðunnar.

Launahlutfall forstjóra

S2 Kynbundinn launamunur

Jafnrétti kynjanna Aukinn jöfnuður Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Óútskýrður kynbundinn launamunur hjá OR

Orkuveita Reykjavíkur leggur mikla áherslu á jafnrétti kynjanna og hlaut Jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs 2014 og Hvatningarverðlaun jafnréttismála frá samtökum atvinnulífsins 2015. OR er aðili að Jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna. Á árinu 2017 tók OR í notkun nýtt líkan sem starfsfólk OR þróaði í samstarfi við vísindafólk. Það greinir áhrif hverrar einustu launaákvörðunar á kynbundinn launamun. Með því á fyrirtækið auðveldara með að ná markmiði sínu um að útrýma honum.

OR er mjög kynjaskiptur vinnustaður og við mat á kynbundnum launamun er litið til viðurkenndra áhrifaþátta. Þeir helstu eru  vinnutími, starfshlutfall, ábyrgð, frammistaða, menntun og væntingar um vöxt starfsmannsins í starfi. Eftir stendur óútskýrður kynbundinn launamunur sem ekki er liðinn í starfskjarastefnu OR og tókst að útrýma á árinu 2017. Tölur OR eru teknar út af PwC ár hvert, síðast i júní 2017. Talan fyrir desember 2017 er óstaðfest af ytri aðila en reiknuð með sama hætti og fyrr. Fyrirtækið vinnur að jafnlaunavottun, sbr. breytingu á Jafnréttislögum með lögum nr. 56/2017. 

S3 Starfsmannavelta

OR fylgist með starfsmannaveltu hjá samstæðunni meðal annars eftir aldri og kyni. Tengsl eru á milli efnahagsástands og starfsmannaveltu. Starfsmannavelta jókst frá árinu 2016. Tvennt ræður mestu um það. Breytingar hjá fyrirtækinu og aukin eftirspurn á vinnumarkaði.

Starfsmannavelta

Starfsmannavelta

S4 Jafnræði

Jafnrétti kynjanna Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Kynjahlutfall eftir starfaflokkum

OR er kynjaskiptur vinnustaður og unnið er að því að fjölga konum meðal iðnaðarmanna og sérfræðinga og körlum meðal skrifstofufólks. Samkvæmt úttekt Ernst & Young í maí 2017 eru áhrif kvenna innan orkugeirans mest hjá OR samstæðunni. Á árinu 2017 var vinnutíma iðnaðarmanna og útivinnufólks hjá Veitum og ON breytt til að auka möguleika karla í þessum störfum að axla ábyrgð á heimilisrekstri og jafnframt að vinnutíminn væri síður hindrun fyrir umsóknir kvenna í þau störf. OR hefur ekki tölur yfir kynjaskiptingu meðal verktaka.

Vissir þú?

Orkuveita Reykjavíkur hefur í þrjá vetur starfað með Árbæjarskóla að verkefni sem kallast Iðnir og tækni. Um er að ræða valáfanga í 10. bekk sem hefur það markmið að vekja áhuga nemenda á iðn- og tæknistörfum og kynna þau fjölbreyttu störf og starfstækifæri sem iðn- og tækninám hefur upp á að bjóða.

S5 Hlutfall tímabundinna ráðninga

Tímabundnar ráðningar

Löng hefð er fyrir því hjá veitufyrirtækjunum að ráða ungmenni til sumarstarfa og eru þau mikill meirihluti tímabundinna ráðninga. Öðrum tímabundnum ráðningum hefur fækkað lítillega síðustu ár. OR og dótturfyrirtækin kaupa að mikla vinnu frá stórum fyrirtækjum á borð við verkfræðistofur og framkvæmdaverktaka. Sumt starfsfólk stærri og smærri verktaka vinnur að verulegu leyti fyrir OR eða dótturfyrirtæki. Sá hópur hefur ekki verið skilgreindur og OR hefur ekki tölulegar upplýsingar um samsetningu þessa hóps. 

S6 Jafnréttisstefna

Jafnrétti kynjanna Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Jafnréttisstefna er skuldbinding Orkuveitu Reykjavíkur um stöðugar umbætur í jafnréttismálum. OR leggur mannréttindarákvæði stjórnarskrárinnar til grundvallar jafnréttisstefnu sinni. Á árinu 2017 var meðal annars áfram unnið að verkefninu Iðnir og tækni með strákum og stelpum úr Árbæjarskóla, unnið að innleiðingu jafnlaunavottunar sbr. áskilnað í lögum og vinnutími starfshópa þar sem karlar eru í miklum meirihluta styttur. Jafnréttisnefndir eru starfandi innan allra fyrirtækjanna í samstæðu OR og vinnur hver nefnd eftir framkvæmdaáætlun og er ábyrgð æðsta stjórnanda hvers fyrirtækis að hún sé í samræmi við Jafnréttisstefnu OR, sem samþykkt er af stjórn.

S7 Heilsa og öryggi

Heilsa og vellíðan Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Fjarveruslys á hverja milljón vinnustunda

OR lítur svo á að ekkert verk sé svo mikilvægt að hætta megi öryggi starfsfólk við framkvæmd þess. Stefna OR í öryggis-, heilbrigðis- og vinnuumhverfismálum (ÖHV-stefna) var endurskoðuð af stjórn á árinu 2017. Stefnt er að slysalausum vinnustað. Það markmið náðist ekki árið 2017. OR gerir skýrar kröfur um öryggismál í öllum útboðum og þá kröfu til verktaka í framkvæmdaverkum að öryggisreglum fyrir verktaka sé fylgt. Þá hefur OR gefið út Öryggishandbók. Gerð er krafa um að starfsmenn verktaka sæki viðurkennt námskeið í öryggismálum. OR starfrækir tilkynningagrunn sem starfsfólk skráir í hættur. Skráningarnar eru grunnur umbótastarfs í öryggismálum og hefur þeim fjölgað ár frá ári. Við verkkaup er eftirlit með öryggisþáttum óaðskiljanlegur hluti verkeftirlits. Starfsemi allra fyrirtækja í samstæðu OR nýtur óháðrar vottunar samkvæmt staðlinum OHSAS 18001.

S8 Heilsuvernd

Heilsa og vellíðan Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Veikindi starfsfólks

OR hefur stefnu í öryggis-, heilbrigðis- og vinnuumhverfismálum (ÖHV-stefnu) sem er reglulega rýnd af stjórn OR. Á árinu 2017 var gerð umfangsmikil heilsufarsrannsókn meðal starfsfólks. Starfsfólki gafst kostur á ráðgjöf ef niðurstöður þóttu gefa ástæðu til. Líkamsræktaraðstaða er fyrir hendi á aðalstarfsstöð OR og á árinu var ákveðið að starfsfólk gæti sótt líkamsrækt allt að tveimur klukkustundum í viku á vinnutíma. Áhersla var lögð á andlega heilsu með námskeiðum fyrir stjórnendur svo þeir eigi betur með að koma auga á einkenni vanlíðunar meðal starfsmanna. Á meðal annarra tilboða á árinu voru núvitundarnámskeið og styrktarleikfimi á vinnutíma.

Á árinu uppgötvuðust alvarlegar rakaskemmdir á hluta húsnæðis OR við Bæjarháls. Ljóst þótti að þær höfðu haft áhrif á heilsu einhverra starfsmanna. Sýkta húsið var rýmt. Þeim sem áfram kenndu sér meins vegna þessa var gefinn kostur á starfsstöð þar sem ólíklegast þótti að raka og myglu af hans völdum væri vart.

S9 Barna- og nauðungarvinna

Menntun fyrir alla Jafnrétti kynjanna Ábyrg neysla Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

OR kappkostar að starfa í samræmi við íslenska vinnulöggjöf og stefna fyrirtækisins í ÖHV-málum og starfskjaramálum gengur lengra en löggjöfin á þessum sviðum. OR hefur aldrei borist kvörtun frá starfsfólki OR eða stéttarfélögum þess vegna þessara mála.

OR gerir sér grein fyrir hættu á því að verktakar á vegum OR eða undirverktakar þeirra fylgi ekki reglum. Í því skyni hefur OR meðal annars;

  • innleitt keðjuábyrgð í verkútboðum og verksamningum, 
  • gert kröfu um að reikningar vegna aðkeyptrar vinnu megi ekki vera fyrir lengri tíma en rúma sjö tíma á sólarhring nema með leyfi frá OR (slíkt leyfi hefur ekki verið veitt) og 
  • gert kröfu í verksamningum um að launagreiðslur og tryggingar séu í samræmi við íslensk lög.

Á árinu 2017 var einu sinni kallað eftir gögnum vegna síðastnefndu kröfunnar og reyndust greiðslur í samræmi við  kjarasamning.

Þar sem alþjóðlegt vottunarkerfi er ekki fyrir hendi vegna barna- og nauðungarvinnu á OR erfitt með að staðfesta að slíkt fari ekki fram innan allrar virðiskeðju fyrirtækisins, t.d. í kaupum á vöru, en riftunarákvæði eru í mörgum innkaupasamningum OR verði uppvíst um slíkt.

S10 Mannréttindi

Jafnrétti kynjanna Aukinn jöfnuður Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Jafnréttisstefna OR tekur til mannréttinda samkvæmt þeim þáttum sem tilgreindir eru í stjórnarskrá Íslands. Í siðareglum fyrirtækisins er einnig sérstakur kafli helgaður mannréttindum og jafnrétti. Fræðsla um þetta efni er reglubundin. Á árinu 2017 var gefið út rafrænt fræðsluefni um kynbundna og kynferðislega áreitni og haldið var námskeið í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur um efnið, sem allir starfsmenn þurftu að sækja. Skráð verklag er í gildi um viðbrögð við kvörtunum um einelti eða kynferðislega áreitni og geta starfsmenn leitað nafnlaust til ytri aðila í trúnaði telji þeir sig verða fyrir slíku ofbeldi á vinnustaðnum.

S11 Mannréttindabrot

Jafnrétti kynjanna Aukinn jöfnuður Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hlutfall starfsfólks sem segist hafa orðið fyrri einelti eða kynferðislegri áreitni

OR fylgist náið með þróun mála sem varða aðbúnað á vinnustað og menningu. Vinnustaðurinn er kynskiptur að verulegu leyti og brugðist er við kvörtunum um áreitni eða einelti samkvæmt skráðu verklagi. Í vinnustaðargreiningum, sem gerðar eru á hverju ári, er spurt um einelti og kynferðislega áreitni. Þátttaka í þessum könnunum er jafnan meiri en 95% og svör eru ekki rekjanleg. Nokkur eineltismál voru tilkynnt á árinu 2017 og var unnið með þau samkvæmt skilgreindu verklagi. Stjórnendur hjá OR samstæðunni tóku þátt í nokkrum viðburðum tengdum #metoo byltingunni síðla árs 2017 með það fyrir augum að hefja umfangsmikla og skipulagða umræðu meðal alls starfsfólks samstæðunnar á árinu 2018.

S12 Fjölbreytni stjórna

Jafnrétti kynjanna Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Innan samstæðu OR eru starfandi fimm félög sem lúta sérstakri stjórn. Stjórnarmenn móðurfélagsins, sem jafnframt skipa stjórn OR Eigna, skulu m.a. hafa þekkingu og reynslu sem hæfir þeirri ábyrgð sem stjórnarsetunni fylgir.  Samsvarandi kröfur eru gerðar um setu í stjórn dótturfélaga. Í stjórnum dótturfélaga skulu þrír fulltrúar vera starfsmenn OR, þar af einn úr stjórnendahópi og skal hann vera formaður. Hjá ON, Veitum og GR eru tveir utanaðkomandi sérfræðingar á starfssviði viðkomandi fyrirtækis í stjórn.

Frá árinu 2014 hefur stjórn OR ekki uppfyllt lagakröfu um kynjajafnrétti í stjórn. Konur eru þar tveir þriðju hlutar stjórnarmanna.

Stjórnarsæti innan samstæðunnar eru alls 27. 14 eru skipuð konum og 13 körlum. 

Kynjaskipting í stjórnum innan OR samstæðunnar

Stjórnarmenn óháðir félaginu eða eigendum þess

Umbætur í innheimtu

Fjöldi lokana 2006-2017

Á undanförnum árum hefur OR unnið markvisst að umbótum á innheimtu viðskiptakrafna. OR sér um útgáfu og innheimtu reikninga fyrir öll fyrirtækin í samstæðunni. Reikningarnir eru um 5,5 milljónir á ári og nú eru um 40% þeirra rafrænir. Áhersla OR er á að hjálpa fólki sem lendir í vanskilum út úr þeim. Úrræðum þjónustufulltrúa til að leysa úr málum hefur verið fjölgað og skerpt hefur verið á innheimtuferlinu öllu. Árangur þessa er að lokunum fyrir þjónustu hjá viðskiptavinum hefur fækkað verulega. Lokanir af hálfu OR hafa aldrei verið færri en árið 2017.

Vissir þú?

Á árinu 2017 tóku unnu Veitur með hópnum sem stóð að Ligeglad-þáttunum að álestrarátaki meðal viðskiptavina. Þættirnir voru sprenghlægilegir og myndböndin sem unnin voru fyrir Veitur ekki síður. Þau má sjá hér á You Tube-rás Veitna.

Í starfsemi OR, þar sem lögð er áhersla á stöðugar umbætur, verður til margháttuð þekking sem nýst getur öðrum. Ræðst það meðal annars af;

  • forystu fyrirtækja innan samstæðunnar í jarðhitanýtingu,
  • að Veitur eru langstærsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu og 
  • Gagnaveita Reykjavíkur með útbreiddasta ljósleiðaranet landsins.

OR lítur á það sem hlutverk sitt að miðla reynslu og þekkingu til annarra sem geta haft not af.

Árlega heldur OR samstæðan Vísindadag, þar sem ýmis þróunarverkefni eru kynnt. Landgræðslustjóri ON hélt námskeið og útbúið var kennslumyndband um lækningu sára í mosaþembum. Sá fróðleikur sem hefur víðast ratað er vafalaust sú þekking sem vísindafólk OR hefur aflað í samstarfi við fjölda annarra vísindamanna um bindingu jarðhitalofttegunda í basalti. Fjöldamargir mjög útbreiddir fjölmiðlar í heiminum hafa fjallað um verkefni OR og ON við Hellisheiðarvirkjun, sem þykir einstakt.

Samstarfsaðilar CarbFix og tengdra verkefna hafa alls hlotið sem svarar til 2,5 milljarða íslenskra króna í rannsóknarstyrki.

Nokkrir starfsmenn samstæðunnar kenna reglulega við háskóla og orkuskóla hér á landi og halda erindi á fagráðstefnum á Íslandi og erlendis. Sérþekking á jarðhita er eftirsótt en á árinu færðist í aukana að leitað væri til OR vegna árangurs fyrirtækisins í jafnréttismálum. Forstjóri OR flutti þannig erindi á Barber Shop-fundi Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn í október.

Fjöldi rafbíla á Íslandi og ON hlaðanna

OR og dótturfélögin hafa sett sér metnaðarfull loftslagsmarkmið, að draga úr útblæstri um 60% til ársins 2030. Vegna eðlis starfseminnar geta þau líka haft áhrif á kolefnisspor annarra, beint og óbeint. Uppbygging Orku náttúrunnar á hlöðum með hraðhleðslum meðfram þjóðvegum og í þéttbýli gerir rafbíla að raunverulegum valkosti fyrir fólk og fyrirtæki. ON er í forystu uppbyggingar innviða fyrir orkuskipti í samgöngum hér á landi. Mikill kraftur var í uppbyggingu á árinu og í árslok 2017 voru hlöður ON orðnar 25 talsins.