sidenav arrow up
sidenav arrow down

Umhverfi

Orkuveita Reykjavíkur er á meðal stærstu fyrirtækja landsins  og frammistaða OR og dótturfélaga í umhverfismálum skiptir því máli. Samstæða OR hefur það markmið að minnka kolefnisspor rekstursins um 60% frá 2015 til 2030. Helstu umhverfisverkefni samstæðunnar má sjá í meðfylgjandi lista. Starfsemi samstæðu OR er vottuð samkvæmt ISO 14001 staðlinum. Samstæðan gefur reglubundnar skýrslur um umhverfismál til heilbrigðiseftirlita, Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar sem jafnframt eru leyfisveitendur og sinna eftirliti með starfseminni, sjá viðauka.

Samstæða OR hefur lagt áherslu á að ná utan um og birta upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni, eins og fram kemur í köflum E1-E6. Birtir eru kolefnisvísar sem vonast er til að setji losun frá samstæðunni í áþreifanlegra og mælanlegra samhengi en áður. Ennfremur er áhersla lögð á vatnsvernd, vatnsvinnslu og meðhöndlun úrgangs, sjá kafla E7-E8. Í köflum sem varða sérstök umhverfisáhrif, E10, er fjallað um umhverfisslys við Andakílsárvirkjun, vinnslu úr háhitasvæðum, losun brennisteinsvetnis og hreinsistöðvar fráveitu svo dæmi séu tekin.

Áhersla samstæðu OR í umhverfismálum:

  • Minnka kolefnisspor rekstursins um 60% frá árinu 2015 til 2030
  • Leggja ríka áherslu á vatnsvernd, sýna ábyrga vinnslu úr vatnsauðlindum og vinna heilnæmt neysluvatn til langrar framtíðar
  • Sýna ábyrga umgengni og vinnslu úr lághitaauðlindum
  • Sýna ábyrga umgengni og vinnslu úr háhitaauðlindum, draga úr losun brennisteinsvetnis og losa jarðhitavatn á ábyrgan hátt
  • Sýna ábyrga umgengni og rekstur fráveitu  
  • Meðhöndla úrgang á ábyrgan hátt 
  • Beita áfram árangursríkum aðferðum við frágang vegna rasks
  • Vera í fararbroddi í vistvænum samgöngum 

Losun koltvíoxíðs frá samstæðu OR

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Bein losun samstæðu OR, binding með landbótum og viðbótarlosun, nyti CarbFix tækni ekki við, 2015-2030

Samstæða OR hefur sett sér það markmið að minnka losun koltvíoxíðs frá rekstrinum um 60% frá árinu 2015 til 2030. Útreikningar á losun eru í samræmi við staðalinn Greenhouse Gas Protocol  – Corporate Accounting and Reporting Standard. Kolefnisbinding með landbótum er birt sér og ekki tekin með í útreikningi á kolefnisspori samstæðunnar, sjá viðauka. Ástæðan er sú að með landbótum eins og skógrækt og landgræðslu eru gróðurhúsalofttegundir fjarlægðar úr andrúmslofti og bundnar í gróðri en ekki er dregið beint úr losun frá starfseminni. Niðurdæling og  binding á koltvíoxíði í bergi við Hellisheiðarvirkjun, sem hófst um mitt ár 2014, vegur þyngst í að minnka kolefnisspor samstæðunnar enda er um að ræða bindingu innan vinnslurásar virkjunarinnar. Árið 2017 var hlutfallsleg niðurdæling koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun tæp 35% af útblæstri virkjunarinnar. 

Vissir þú?

Frá því farið var að hreinsa og dæla niður koltvíoxíði frá Hellisheiðarvirkjun um mitt ár 2014 hafa um 25.000 tonn verið bundin í berglög við virkjunina. Þessi binding er á við að tæplega 14.000 Toyota Yaris bensínbílar, sem aka 15.000 km á ári, hafi verið fjarlægðir af götum höfuðborgarsvæðisins.

E1 Bein og óbein losun gróðurhúsalofttegunda

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Bein og óbein losun samstæðu OR árið 2017

  • Umfang 1 - bein losun: Jarðgufuvirkjanir ON, lághiti Veitna, aðveitu- og dreifikerfi Veitna, farartæki, eigið húsnæði.
  • Umfang 2 - óbein losun: Rafmagn og hiti til eigin nota.
  • Umfang 3 - óbein losun: Úrgangur, flugferðir starfsfólks, ferðir starfsfólks í og úr vinnu.

Árið 2017 var umfang 1 eða bein losun frá kjarnastarfsemi samstæðu OR um 40.300 tonn CO2 ígilda. Losunin er frá jarðvarmavirkjunum Orku náttúrunnar vegna  vinnslu á rafmagni og heitu vatni, nýtingu jarðvarma á lághitasvæðum Veitna til húshitunar, lagnakerfi Veitna og frá bílaflota og húsnæði samstæðunnar. Umfang 2, óbein losun vegna rafmagns og hita fyrir kjarnastarfsemi samstæðu OR var um 2.800 tonn CO2 ígilda.  Umfang 3, óbein losun frá úrgangi vegna kjarnastarfsemi samstæðunnar, ferða starfsfólks í og úr vinnu og flugferða starfsfólks, var um 990 tonn CO2 ígilda. Kolefnisbinding með landgræðslu og skógrækt er ekki talin með í útreikningi á kolefnisspori samstæðunnar enda er ekki um að ræða minnkun á beinni losun frá starfseminni með þessum aðgerðum heldur bindingu úr andrúmslofti. Losun gróðurhúsalofttegunda án mótvægisaðgerða frá samstæðu OR er tæp 2% af heildarlosun á Íslandi miðað við heildarlosun 2015 (Umhverfisstofnun, 2018). 

Vissir þú?

Um 180 starfsmenn samstæðu OR, eða rúmlega 35% starfsfólks, nýttu vistvænan samgöngumáta í og úr vinnu árið 2017. Þannig hafa þau dregið úr óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda hjá samstæðu OR frá árinu 2014 þegar samstæðan hóf að bjóða upp á samgöngusamninga. 

Það sem við er átt með kolefniskræfni er hve mikil kolefnislosun á sér stað á hverja einingu í rekstri, t.d. tekna, framleiddar einingar o.s.frv. Miðað við veltu og stærð húsnæðis hjá samstæðu OR hefur kolefniskræfni samstæðunnar dregist saman frá árinu 2015.

Orka náttúrunnar framleiðir rafmagn til neytenda og heitt vatn sem selt er í heildsölu til Veitna. Kolefnisspor á framleidda einingu rafmagns og heits vatns við virkjun hjá Orku náttúrunnar hefur lækkað frá 2015. Veitur dreifa rafmagni og heitu vatni til neytenda vinna neysluvatn og dreifa því ásamt því að reka fráveitu. Hjá Veitum hefur kolefnisspor vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu lækkað frá árinu 2015. Kolefnisspor fráveitu hefur lækkað frá árinu 2015. Árið 2017 var í fyrsta sinn lagt mat á kolefnisspor gagnaflutnings um ljósleiðara hjá Gagnaveitu Reykjavíkur sem reyndist vera 0,7 gr. CO2 ígildi/gígabit, sjá töflu og mynd um kolefnisvísi á framleidda einingu miðils hjá samstæðu OR. Athugið að eining fyrir rafmagn og heitt vatn er í kWst, kalt vatn er í m3, fráveitu er í persónueiningum og gagnaflutning um ljósleiðara er í gígabitum.

*Kolefnisspor hefur verið metið u.þ.b. 0 gr/kWst
**Skv. Iceland Inventory Report er vegið meðaltal losunar gróðurhúsalofttegunda á kWst af rafmagni framleiddu með vatnsafli og jarðvarma á Íslandi árið 2015 10,1 g.  Fyrir vatnsafl er losun gróðurhúsalofttegunda á kWst rafmagns 1,5 g og fyrir jarðvarma 32,8 g.

Vissir þú?

Kolefnisspor meðalheimilis er um 390 kg CO2 ígildi á ári og er miðað við um 200 fermetra húsnæði og fjögurra til fimm manna fjölskyldu.

E3 Bein og óbein orkunotkun eftir orkutegund

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Samstæða OR vinnur endurnýjanlega orku, rafmagn og heitt vatn, úr jarðvarma og vatnsafli og notar  sjálf um 10% af framleiddu rafmagni og um 1% af framleiddu heitu vatni. Jarðefnaeldsneyti, einkum díselolía er nýtt beint í tengslum við framkvæmdir og vegna reksturs samstæðu OR. Til að draga úr beinni orkunotkun vegna samgangna í tengslum við starfsemi samstæðu OR hefur til dæmis verið sett fram áætlun til ársins 2030 um endurnýjun bílaflotans með ökutækjum sem knúin eru loftslagsvænu eldsneyti því betur má ef duga skal, sjá viðauka. Til að upplýsingarnar séu sambærilegar er frumorkunotkunin sett fram í megajoule (MJ), sjá töflu.

* Frumorkunotkun er miðuð við nýtingu niður í 5°C.
** Umreiknistuðlar fyrir jarðefnaeldsneyti eru miðaðir við neðra brunagildi þess.

Eigin notkun á rafmagni er einkum vegna vinnslu á heitu vatni, dælingar í fráveitu, heitu og köldu vatni og reksturs fasteigna. Eigin rafmagns- og heitavatnsnotkun á stærð húsnæðis hefur almennt aukist frá 2015 og og á það einnig við um orkunotkun á fjölda starfsmanna hjá samstæðu OR árið 2017. Notkun jarðefnaeldsneytis á starfsmann var minni árið 2017 miðað við árið 2015, sjá töflu. Til að upplýsingarnar séu sambærilegar er frumorkunotkunin sett fram í megajoule (MJ).

* Frumorkunotkun  er miðuð við nýtingu niður í 5°C.
** Umreiknistuðlar fyrir jarðefnaeldsneyti eru miðaðir við neðra brunagildi þess.

Hlutfall beinnar frumorkunotkunar (eigin notkun) samstæðu OR 2017

Hlutfall endurnýjanlegrar orku af heildar orkunotkun samstæðu OR 2017

Samstæða OR vinnur endurnýjanlega orku, rafmagn og heitt vatn til húshitunar, úr jarðvarma og vatnsafli og notar hluta þessarar orku í starfsemi sína. Helsti orkugjafi sem er nýttur í starfseminni er rafmagn og er um að ræða um 99% endurnýjanlega orku. Til að upplýsingarnar séu sambærilegar er frumorkunotkunin sett fram í megajoule (MJ). 

* Frumorkunotkun  er miðuð við nýtingu niður í 5°C.

Vissir þú?

Vorið 2017 settum við okkur það markmið að ná matarsóun niður úr 20 kg á dag í 16 kg á dag í matstofunni að Bæjarhálsi. Starfsfólk gerði gott betur og í lok desember voru matarleifar á diskum 9 kg á dag. Við höfum þannig komið í veg fyrir að um 20 máltíðum hafi verið hent af mat á dag.

Endurnýjanleg orkukræfni

Ljósmynd: Gretar Ívarsson

Fyrir hvert MJ sem samstæða OR nýtir af óendurnýjanlegri orku eru 830 MJ endurnýjanleg orka.

E7 Vatnsvernd og ábyrg vinnsla

Hreint vatn og salernisaðstaða Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Líf í vatni Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Gæði neysluvatns í Reykjavík

Árið 2017 tryggðu vatnsveitur Veitna íbúum og fyrirtækjum á veitusvæðinu heilnæmt neysluvatn sem samræmist gæðastöðlum, ákvæðum laga og reglna og markmiðum Veitna, sjá viðauka. 

Vatnsból Veitna eru þrettán og er vatnið notað á höfuðborgarsvæðinu og á Vestur- og Suðurlandi. Vatnsból Orku náttúrunnar eru tvö, sjá viðauka. Dreifikerfi vatnsveitnanna þjónar alls um 45% þjóðarinnar. Markvisst er unnið að forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins. 

Árið 2017 uppfylltu öll sýni sem tekin voru í Reykjavík gæðakröfur. Gerlar mældust í einu sýni yfir viðmiðunarmörkum á Vesturlandi en við endurtekna sýnatöku stóðst sýni gæðakröfur. Annars uppfylltu sýni á landsbyggðinni gæðakröfur, sjá viðauka. 

Heiðmörk er vatnstökusvæði Veitna fyrir höfuðborgarsvæðið og byggist sú vatnsvinnsla alfarið á hreinu og ómeðhöndluðu grunnvatni. Vatnsvernd er afmörkuð utan um vatnsbólin. Eftirlitsmaður Veitna fylgist með vatnsverndarsvæðinu, þar á meðal flutningi á olíu, bensíni ásamt öðrum varasömum efnum, sjá viðauka. Samstæða OR leggur ríka áherslu á vatnsvernd svo að komandi kynslóðir geti notið þeirra náttúrugæða sem heilnæmt og ómeðhöndlað vatn er. 

Bein notkun á köldu vatni er til neyslu en þáttur kælingar og rekstrar í jarðvarmavirkjunum vegur þyngst. 

Vissir þú?

Við Íslendingar notum hvert og eitt um 150 lítra af vatni á dag, einkum í eldamennsku, böð, salerni og þvotta

E8 Ábyrg meðhöndlun úrgangs

Sjálfbærar borgir og samfélög Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Flokkun úrgangs hjá samstæðu OR 2013-2017

Losun gróðurhúsalofttegunda frá urðuðum úrgangi hefur aukist verulega frá  árinu 2015. Hlutur úrgangs úr hreinsistöðvum fráveitu er mestur eða rúmlega 60% af heildarmagni urðaðs úrgangs og asbest var um 30% af heildarmagninu vegna framkvæmda við Deildartungulögn. Takmarkaður möguleiki er á því að stýra því hve mikill úrgangur af þessari gerð fellur til en séð er til þess að hann sé urðaður á viðurkenndum urðunarstöðum. Magn annars úrgangs ýmist jókst eða dróst saman. Úrgangur jókst meðal annars frá skrifstofurými vegna einskiptisaðgerða í skrifstofurekstri en verulegur hluti starfsfólks flutti sig til á árinu vegna rakaskemmda í húsnæði OR. Í viðaukum má sjá hvernig úrgangur skiptist á milli úrgangsflokka, starfsstöðva og sveitarfélaga. 

Ráðist var í átak til að draga úr matarsóun og minnkaði hún um 50% árið 2017. Áfram verður haldið með þetta verkefni. 

Umhverfis- og auðlindastefna

Ljósmynd: Magnea Magnúsdóttir

Samstæða OR starfar eftir umhverfis- og auðlindastefnu sem er skuldbinding OR um stöðugar umbætur í umhverfismálum. Hún byggir á fimm meginreglum sem eiga við allar starfseiningar: Ábyrga auðlindastýringu, gagnsemi sem felst í aðgangi að veitum fyrirtækisins, áhrif losunar vegna starfseminnar, áhrif í samfélaginu og starfsemi fyrirtækisins. Stefnan nýtist sem grundvöllur góðs samstarfs við hagsmunaaðila. Umhverfis- og auðlindastefnan byggir á gildum og heildarstefnu Orkuveitu Reykjavíkur. Samstæða OR hefur skilgreint á þriðja tug þýðingarmikilla umhverfisþátta. Þættirnir eru skilgreindir til þess að nálgast megi umhverfismálin skipulega, með skýrum markmiðum og skilgreiningu ábyrgðar á að þeim sé náð.

E10 Sérstök umhverfisáhrif

Fjallað er um umhverfisslys við Andakílsárvirkjun, bilun í skólpdælustöð við Faxaskjól ásamt umhverfisáhrifum þeirra þýðingarmiklu umhverfisþátta sem samstæða OR hefur skilgreint með hliðsjón af þeim meginreglum sem fram koma í umhverfis- og auðlindastefnu fyrirtækisins. 

Þar ber hæst ábyrga vinnsla úr lághita- og háhitasvæðum, losun brennisteinsvetnis, losun jarðhitavatns og nýjar hreinsistöðvar fráveitu á Kjalarnesi, Akranesi og Borgarnesi. Rekstur lofthreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun hefur gengið vel og getur hún nú hreinsað tæp 70% af brennisteinsvetninu og tæp 35% af koltvíoxíðinu frá virkjuninni. Sett hefur verið í forgang að ná tökum á losun jarðhitavatns við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun og með tilkomu hreinsistöðva fráveitu á Vesturlandi hafa íbúar og atvinnulíf á öllu safnsvæði samstæðunnar nú kost á að tengst veitukerfi eða hreinsivirki.

Umhverfisslys við Andakílsárvirkjun

Ljósmynd: Ólöf Andrjesdóttir

Mikið set úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar barst í farveg Andakílsár um miðjan maí 2017 þegar lónið var vatnstæmt vegna ástandsmats á stíflumannvirkjum. Vöktun var ábótavant og starfsfólk Orku náttúrunnar áttaði sig ekki á umfangi aurburðarins meðan botnrás stíflunnar stóð opin. Orka náttúrunnar tekur ábyrgð á þeim umhverfisáhrifum sem urðu á lífríki Andakílsár og hefur kappkostað að draga úr þeim. 

Hafrannsóknastofnun var fengin til að rannsaka umhverfisáhrifin og leiðbeina um viðbrögð. Stofnaður var verkefnahópur skipaður sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar, Háskóla Íslands, fulltrúum veiðifélaga, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Skorradalshrepps, Borgarbyggðar og Orku náttúrunnar. Ráðist var í hreinsunaraðgerðir og fiskur tekinn í klak til að draga úr neikvæðum áhrifum á lífríkið. 

Áfram er fylgst með svo unnt verði að taka ákvörðun um frekari aðgerðir.

Bilun í skólpdælustöð við Faxaskjól

Í júní 2017 bilaði neyðarloka í skólpdælustöð við Faxaskjól í Reykjavík og fór óhreinsað skólp í sjó í 17 daga frá miðjum júní og fram í miðjan júlí. Það láðist að tilkynna opinberlega að óhreinsað skólp færi í sjó og þykir Veitum miður að almenningur hafi orðið fyrir óþægindum vegna þessa. Í kjölfarið fóru Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar yfir verkferla og breyttu þeim þannig að nú eru tilkynningar til almennings markvissari og fráveitusjá er komin á vef Veitna. Dælustöðin við Faxaskjól flytur skólp frá Norðlingaholti, hluta Árbæjar, Breiðholti, Fossvogi, Garðabæ og Kópavogi í skólphreinsistöðina í Ánanaustum.

Ábyrg umgengni og vinnsla úr lághitaauðlindum

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Árið 2017 var vinnsla á lághitasvæðum Veitna á höfuðborgarsvæðinu og flestum dreifisvæðum á landsbyggðinni í samræmi við skilgreiningu fyrirtækisins og ákvæði í lögum og reglugerðum. Veitur reka þrettán hitaveitur: eina á höfuðborgarsvæðinu sem er sú stærsta, fimm á Vesturlandi og sjö á Suðurlandi, sjá viðauka. Hitaveiturnar þjóna um 70% þjóðarinnar. Lághitasvæðin á höfuðborgarsvæðinu eru nýtt jafnt og þétt og allt bendir til þess að hægt sé að viðhalda þeirri notkun um fyrirsjáanlega framtíð, sjá viðauka. Ástand flestra lághitasvæða á Suður- og Vesturlandi er gott en þó eru undantekningar þar á.  Afla þarf meira heits vatns fyrir Rangárveitu sem þjónar þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli og í Hveragerði. Haustið 2017 var ráðist í borun eftir heitu vatni í landi Götu við Laugaland en árangur varð ekki í takt við væntingar. Staðan verður metin aftur vorið 2018. Vatns- og gufuöflun var betri í Hveragerði árið 2017 en árið 2016. 

Vissir þú?

Á höfuðborgarsvæðinu eru lághitasvæði og heitt vatn þaðan er nýtt til húshitunar. Svæðin eru í Elliðaárdal og Laugarnesi í Reykjavík og að Reykjum og Reykjahlíð í Mosfellsbæ

Ábyrg umgengni og vinnsla úr háhitaauðlindum

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Vinnslusvæði jarðvarmavirkjana á Hengilssvæðinu.gif

Árið 2017 var orkuvinnsla á Nesjavöllum og á Hellisheiði í samræmi við nýtingarleyfi og markmið Orku náttúrunnar. Í ljós kom að dvínun á vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar varð ekki eins mikil og búist hafði verið við. Orka náttúrunnar fylgist vel með niðurdrætti í Hverahlíð og í eldra vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar, sjá viðauka. Árið 2017 hófst undirbúningur að öflun leyfa til að stækka vinnslusvæðið enn frekar til að tryggja sjálfbæra nýtingu jarðhitaauðlindar fyrir Hellisheiðarvirkjun.  Vinnsla Nesjavallavirkjunar var svipuð og undanfarin ár.

Losun jarðhitavatns og eftirlit með grunnvatni

Hreint vatn og salernisaðstaða Nýsköpun og uppbygging Líf í vatni Líf á landi Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Árið 2017 var um 60% af jarðhitavatninu frá Hellisheiði skilað niður í niðurdælingarsvæðin við virkjunina, rúmlega 30% fór út um kæliturna sem gufa og restin, um 7%, fór á yfirfall, sjá viðauka. Árið 2017 var rúmlega 50% af jarðhitavatni frá Nesjavöllum  skilað niður fyrir köld grunnvatnslög um niðurdælingarholur, sjá viðauka. Jarðhitavatni er dælt niður til að vernda yfirborðsvatn og grunnvatn því jarðhitavatnið er heitara en grunnvatn og með aðra efnasamsetningu. 

Annað markmið er að stýra niðurdælingu þannig að hún styðji við þrýsting í jarðhitageyminum sem stuðlar að aukinni sjálfbærni nýtingarinnar. Við ákveðnar aðstæður í rekstri Hellisheiðarvirkjunar er ekki hægt að dæla nema hluta jarðhitavatnsins í dýpri borholur sem tengdar eru sama háhitakerfi og vinnsluholurnar. Við þær aðstæður fer hluti skiljuvatnsins í grunnar borholur vestan við virkjunina. 

Undanfarin ár hefur verið unnið að mörgum rannsóknar- og þróunarverkefnum til að uppfylla kröfur um niðurdælingu á Hellisheiði og hefur talsverður árangur náðst og þekking á áhrifum niðurdælingar aukist, sjá viðauka. Í kjölfar endurhönnunar á kæliturni við Nesjavallavirkjun árið 2017 mun losun upphitaðs grunnvatns á yfirborð minnka verulega. Vatnshiti í lindum við Þingvallavatn, sjá mynd. Styrkur efna í vöktunarholum í nágrenni við báðar virkjanirnar er undir neysluvatnsmörkum, sjá viðauka.

Vatnshiti í Varmagjá við Þingvallavatn

Nesjavallavirkjun var gangsett árið 1990.
Þegar rafmagnsframleiðsla hófst í virkjuninni árið 1998 jókst varmamengun umtalsvert.
Nokkuð dró úr varmamengun eftirniðurdælingarholur voru teknar í notkun 2004-2008 og kæliturn gangsettur 2005.

Vissir þú?

Styrkur snefilefna í jarðhitavatni hér á landi er mun lægri en á jarðhitasvæðum erlendis vegna jarðfræðilegra aðstæðna. Arsen, blý, kadmíum og kvikasilfur í jarðhitavatni frá Nesjavallavirkjun hafa helst verið talin geta haft neikvæð áhrif á lífríki í Þingvallavatni. Niðurstöður mælinga sýna ekki tölfræðilega marktæk áhrif á lífríkið af völdum þessara snefilefna.

Jarðskjálftar vegna losunar jarðhitavatns

Nýsköpun og uppbygging Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Jarðskjálftar.jpg

Ljósmynd: Gretar Ívarsson - Vinnsluholur (HE-46, 52) í Sleggjubeinsdal við Húsmúla.

Niðurdæling getur valdið skjálftavirkni, svokallaðri örvaðri skjálftavirkni eða gikkskjálftum. Það er vel þekkt á niðurdælingarsvæðum Hellisheiðarvirkjunar einkum á Húsmúlasvæðinu, sjá viðauka. Skjálftarnir verða þegar niðurdælingin losar spennu sem hlaðist hefur upp í jarðlögum vegna jarðskorpuhreyfinga. Orka náttúrunna vinnur eftir verklagi sem miðar að því að lágmarka hættu á örvuðum jarðskjálftum á svæðinu.  

Á seinni hluta árs 2017 voru sendar út fjórar tilkynningar til skjálftavaktar Veðurstofu Íslands og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna breytinga á niðurdælingu. Smáskjálftar mældust í tengslum við þessar breytingar eins og búast mátti við en enginn var það stór að hann fyndist í byggð. Fjórir nýir jarðskjálftamælar voru settir upp í sunnanverðum Henglinum haustið 2017.  

Losun brennisteinsvetnis

Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Styrkur brennisteinsvetnis (H2S) í byggð fór fjórum sinnum yfir viðmiðunarmörk árið 2017, tvisvar sinnum í Norðlingaholti og tvisvar sinnum í Hveragerði. Árangur hreinsunar og niðurdælingar á brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun var umtalsverður árið 2017 og var hlutfallsleg niðurdæling brennisteinsvetnis tæp 70%. 

Í desember 2017 lauk tengingu lofthreinsistöðvar við Sleggju vegna frekari hreinsunar og niðurdælingar og í kjölfarið hófust prófanir og er að vænta niðurstöðu um árangur á árinu 2018. Losun brennisteinsvetnis frá virkjunum á Hengilssvæðinu hefur verið stærsta umhverfismál Orku náttúrunnar því brennisteinsvetni veldur lyktarmengun, tæringu á málum og er hættulegt fólki í háum styrk. Losun brennisteinsvetnis frá Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun var samtals rúmlega 9,5 þúsund tonn árið 2017, sjá viðauka.

Unnið er að áætlun um sporlausa vinnslu í virkjunum ON.

Vissir þú?

Glópagull er steintegund sem myndast úr brennisteinsvetni.

Jarðhitagarður skipulagður á Hellisheiði

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Jarðhitagarður ON

Árið 2017 var stofnaður jarðhitagarður við Hellisheiðarvirkjun í samstarfi við Sveitarfélagið Ölfus þar sem leitað er leiða til að auka fjölbreytta notkun á varma, rafmagni og jarðhitalofttegundum frá virkjuninni. Fjölbreytt notkun jarðhitans getur aukið hagkvæmni og eflt umhverfisvænan rekstur og nýsköpun í atvinnulífi.  Skiljuvatn frá Hellisheiðarvirkjun er notað til framleiðslu á fæðubótarefni hjá fyrirtækinu geoSilica og ýmis sprotafyrirtæki hafa sýnt áhuga á því að nýta koltvíoxíð frá virkjuninni.  

Losun vegna fráveitu

Hreint vatn og salernisaðstaða Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Fráveitukort.gif

Árið 2017 voru nýjar hreinsistöðvar fráveitu gangsettar á Kjalarnesi og Akranesi og stöðin í Borgarnesi verður gangsett vorið 2018. Á öllu safnsvæði Veitna hafa íbúar og atvinnulíf þá aðgang að veitukerfi eða hreinsivirki í samræmi við lög, reglur og markmið Veitna. Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í Reykjavík og á Vesturlandi, sjá viðauka. Frárennsli frá Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi auk hluta Garðabæjar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða. 

Fráveitur Veitna þjóna um 40% þjóðarinnar. Niðurstöður mælinga á skólpmengun við jaðar þynningarsvæða í Faxaflóa árið 2017 sýna að fjöldi örvera var undir viðmiðunarmörkum en yfir mörkum fyrir saurkólígerla á nokkrum stöðum við strandlengjuna annað árið í röð, sjá viðauka. 

Útstreymisbókhald hreinsistöðva Veitna er í viðaukum. Örverur hafa mælst yfir mörkum úr útrennsli eða viðtaka  lífrænu hreinsistöðvanna á Vesturlandi undanfarin ár. Undanfarin ár hefur verið reynt að finna skýringar á fjölda örvera í viðtaka í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands en ekki hafa fundist viðhlítandi skýringar á örverumenguninni. 

Vissir þú?

Með tilkomu dælu- og hreinsistöðva á höfuðborgarsvæðinu dró mjög úr mengun við strandlengjuna og þannig varð mögulegt að taka í notkun ylströnd í Nauthólsvík.

Landbætur á athafnasvæðum OR

Aðgerðir í loftslagsmálum Líf á landi Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Samstæða OR hefur umsjón með tæplega 19.000 hekturum lands og eru tæpir 16.000 hektarar innan verndarsvæða, sjá viðauka. Í viðauka er birtur listi yfir tegundir fugla og plantna á válista sem hafa þar búsvæði. Lögð er áhersla á góðan frágang, endurheimt náttúrlegs umhverfis og minnkun sjónrænna áhrifa á virkjanasvæðum Orku náttúrunnar og athafnasvæðum Veitna, Gagnaveitu Reykjavíkur og OR. Þetta er gert í samvinnu við leyfisveitendur og í samræmi við markmið samstæðu OR. Tæplega 7 hektarar voru ræktaðir upp með staðargróðri árið 2017. 

Umhverfis- og landgræðslustjóri Orku náttúrunnar hlaut Umhverfisverðlaun Ölfuss 2017 fyrir brautryðjendastarf við uppgræðslu á Hellisheiði. 

Hengilssvæðið er fjölbreytt útivistarsvæði en gönguleiðir hafa látið verulega á sjá vegna aukinnar umferðar ferðafólks til dæmis á Ölkelduhálsi, í Sleggjubeinsskarði, í Skeggjadal og austan við Tjarnahnjúk meðfram Álftatjörn.

Vissir þú?

Samstæða OR setur það sem skilyrði í útboðum að gróður sem myndi ella spillast við framkvæmdir sé varðveittur og notaður í frágang á sömu svæðum.

Innkaup

Sjálfbærar borgir og samfélög Ábyrg neysla Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Innkaup.jpg

Ljósmynd: Bjarni Líndal

Innkaup OR og dótturfélaga á vörum og þjónustu eru umfangsmikil, sérstaklega hvað varðar lagnaefni og rafmagnsbúnað. Innkaupaþörfin er metin hjá fyrirtækjunum og kappkostað að nýta vel aðkeypt efni og birgðir eða koma þeim í verð. Nýting á eldri birgðum var góð árið 2017 og lækkaði birgðastaða um 12% milli ára. 

Stuðst er við umhverfismerkingar í innkaupum á rekstrarvörum til dæmis pappír og ræstivörum. Um 50% af innkaupum ársins 2017 á ljósritunarpappír, umslögum, prentgripum, ræstiefni, ritföngum og prenthylkjum voru umhverfismerkt. Prentun og ljósritun er stýrt og hefur dregist saman á mann um 22% frá árinu 2015, sjá viðauka. 

Samstæða OR hefur ekki skimað birgja eftir umhverfisvísum. Fyrirtækin hafa ekki undir höndum mat á mögulegri eða raunverulegri hættu á neikvæðum umhverfisáhrifum í aðfangakeðju þeirra eða viðbrögð við slíkum áhrifum.

Vissir þú?

Undanfarin tvö ár hefur verið gert átak í að fækka þeim sem fá orkureikninga og reikningsyfirlit send á pappír. Álagningarseðlar eru einungis sendir á pappír til þeirra viðskiptavina sem eru 68 ára og eldri. Hefur notkun pappírs og umslaga vegna orkureikninga og vatns- og fráveitugjalda dregist saman um 40% á þessu tímabili.

Efnanotkun

Heilsa og vellíðan Líf í vatni Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Helstu varasömu efnin í notkun hjá samstæðu OR eru asbest, grunnefni sem nýtt er í einangrunarfrauð, klór, sýrur og basar, suðugas og jarðhitagös, olíur og leysiefni. Árið 2017 var töluvert notað af skaðlegum efnum líkt og undanfarin ár. Þær umbætur sem ráðist hefur verið í vegna geymslu á varasömum efnum, flokkun og förgun þeirra hafa aukið vitund starfsfólks á mikilvægi þessa málaflokks. 

Vorið 2017 voru haldnar vinnustofur um varasöm efni fyrir starfsfólk Veitna sem nota slík efni. Samstæða OR losar ekki ósoneyðandi efni vegna starfsemi sinnar. Gerð er grein fyrir flutningi nokkurra varasamra efna í viðauka.

Ábendingar og kvartanir

Ábendingar og kvartanir

Ljósmynd: Einar Örn Jónsson

Umhverfisslys varð við Andakílsárvirkjun þegar mikið set barst úr inntakslóni virkjunarinnar í farveg árinnar, sjá nánar um umhverfisslys við Andakílsárvirkjun. Mengunarslys varð við vatnsverndarsvæði við Rauðsgil í Borgarfirði þar sem grípa þurfti til hreinsunar. Árið 2017 bárust tæpar 600 ábendingar frá viðskiptavinum um umhverfismál og beindust um 560 þeirra að umgengni, 13 að brennisteinsvetni, átta að losun óhreinsaðs skólp í sjó, sex að umhverfisslysi í Andakílsá, ein vegna hávaða og ein vegna heilnæmi neysluvatns. 

Árið 2017 bárust um 60 ábendingar um umhverfismál frá starfsmönnum OR og beindust flestar þeirra að umgengni eða rúmlega 40. Allar ábendingarnar voru rýndar og fjallað er um viðbrögð í viðauka. Í viðauka er greint frá tilkynningum til leyfisveitenda og tilefnum þeirra. Samstarf við leyfisveitendur, hagsmunaaðila og viðskiptavini er starfsfólki samstæðu OR mikilvægt því slík samvinna beinir athygli og áhersluatriðum að því sem skiptir fólk mestur máli. Dæmi um slíkt eru reglubundnir fundir með leyfisveitendum og miðlun upplýsinga frá  OR samstæðunni til samfélagsmiðla.