Árið 2017 tryggðu vatnsveitur Veitna íbúum og fyrirtækjum á veitusvæðinu heilnæmt neysluvatn sem samræmist gæðastöðlum, ákvæðum laga og reglna og markmiðum Veitna, sjá viðauka.
Vatnsból Veitna eru þrettán og er vatnið notað á höfuðborgarsvæðinu og á Vestur- og Suðurlandi. Vatnsból Orku náttúrunnar eru tvö, sjá viðauka. Dreifikerfi vatnsveitnanna þjónar alls um 45% þjóðarinnar. Markvisst er unnið að forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins.
Árið 2017 uppfylltu öll sýni sem tekin voru í Reykjavík gæðakröfur. Gerlar mældust í einu sýni yfir viðmiðunarmörkum á Vesturlandi en við endurtekna sýnatöku stóðst sýni gæðakröfur. Annars uppfylltu sýni á landsbyggðinni gæðakröfur, sjá viðauka.
Heiðmörk er vatnstökusvæði Veitna fyrir höfuðborgarsvæðið og byggist sú vatnsvinnsla alfarið á hreinu og ómeðhöndluðu grunnvatni. Vatnsvernd er afmörkuð utan um vatnsbólin. Eftirlitsmaður Veitna fylgist með vatnsverndarsvæðinu, þar á meðal flutningi á olíu, bensíni ásamt öðrum varasömum efnum, sjá viðauka. Samstæða OR leggur ríka áherslu á vatnsvernd svo að komandi kynslóðir geti notið þeirra náttúrugæða sem heilnæmt og ómeðhöndlað vatn er.
Bein notkun á köldu vatni er til neyslu en þáttur kælingar og rekstrar í jarðvarmavirkjunum vegur þyngst.